Æfingar fóru af stað um miðjan september á síðasta ári og þjálfari deildarinnar Malsor Tafa. Malsor kom til okkar í janúar 2019. Æfingarnar voru að sjálfsögðu litaðar af því ástandi sem verið hefur í þjóðfélaginu undanfarið. Að þessu sinni var afskaplega þægilegt fyrir þjálfara og iðkendur að geta gengið beint að sinni fyrirmyndaraðstöðu og tekið til starfa.
Eins og undanfarin ár þá hafa æfingarnar ekki verið aldursskiptar heldur verið opið fyrir öll börn á aldrinum 6-16 ára.
Í lok október þurftum við að hætta æfingum vegna fjölgunar á smitum í samfélaginu. Æfingar hófust aftur tæpum mánuði seinna eða 19. nóvember.
Seinni hluta sama mánaðar gafst okkur tækifæri á að selja Þristamús frá Barion og gekk sú sala ansi vel. Einnig höfum við eitthvað fengið af flöskum frá einstaklingum. Ekki hafa gefist tækifæri til að ná í frekari styrki frá fyrirtækjum eða einstaklingum.
Deildin fór síðan í jólafrí og byrjaði aftur í byrjun janúar á þessu ári.
Beltapróf fóru síðan fram í lok janúar og stóðu börnin sig með prýði. Til þess að geta staðist beltapróf þurfa krakkarnir að muna nöfn á höggum og spörkum á kóresku og einnig að fara með gólfæfingu sem hæfir þeirri gráðu sem þau eru taka próf fyrir. Allir sem fóru í prófið stóðust sitt.
Í lok janúar var haldið mót á vegum Mudo Gym og Fimleikafélagsins Bjarkar og áttum við 2 keppendur á því móti. Viktor og Lára Stefánsbörn stóðu sig frábærlega. Sigurbjörn Gabríel var aðstoðarþjálfari Malsors þar sem Malsor sem einnig er alþjóðlegur dómari sinnti yfirdæmgæslu á þessu móti.
Samkomur voru síðan bannaðar aftur í lok mars og gátum við ekki æft í 3 vikur vegna þessa, æfingarnar hófust síðan aftur 15. Apríl.
Fjöldi iðkenda var því sem næst óbreyttur frá fyrra ári. Eða á milli 8 og 10 krakkar að staðaldri. Það væri frábært að geta séð þessa deild stækka og dafna á komandi ári og væri flott að fá fleiri krakka af yngstu stigum skólanna. Ef fjöldi iðkenda væri yfir 20 þá væri líka hægt að skoða það að aldursskipta og vera með tvær æfingar fyrir hvorn hóp. Þær hugmyndir sem komu frá á síðasta aðalfundi gætu vel verið framkvæmanlegar á næsta ári svo sem að vera með kynningar í skólunum og bjóða upp á sjálfsvarnarnámskeið fyrir eldri en 16 ára. En allt verður þetta í höndum nýrrar stjórnar.
Við höfum átt gott samstarf með framkvæmdarstjórn og formanni UMFG og hefur okkur tekist að halda deildinni í gangi í vetur. Gerður hefur verið áframhaldandi eins árs samningur við Malsor Tafa og hefjast æfingar því í haust að venju.
Ég mun ekki halda áfram sem formaður frá þessum aðalfundi, en ég mun bjóða fram mína krafta sem meðstjórnandi. Vona svo innilega að hægt verði að halda æfingar reglulega næsta vetur og að deildin vaxi og dafni.
Virðingarfyllst,
Jón Ólafur Sigurðsson