Stjórnin kom saman í upphafi tímabils þar sem framtíðarplön voru rædd, hvernig við vildum hátta hlutunum, skipta verkum á milli okkar því við erum ekki mörg sem komum að þessu mikla starfi sem krefst mikillar viðveru ef vel á að gera. Nýir meðlimir stjórnar sem kosnir voru fyrir ári síðan voru að stíga ný skref í þessi öfluga sjálfboðasstarfi sem er í kringum deildina. Nýir meðlimir voru þá eftir kosningu: Bergur Hinriksson og Guðmundur Ásgeirsson. En fyrir vorum við Erna Rún, Fjóla, Rakel og Haraldur.
Okkar fyrsta umræðuefni eftir fund var auðvitað framtíðarplön deildarinnar þá meðal annars hvert ætlum við okkur með liðin okkar og hvað gerum við í húsnæðismálum.
Við settum saman við ráðningu Lalla með kvennaliðið að starfinu yrði lyft enn hærra en áður og höfum við eytt miklum tíma og fjármunum í að gera liðið betra og sterkara eins og við öll fengum að sjá þegar ungu dömurnar okkar spreyttu sig í sterkri deild hinna bestu. Það sem okkur langaði að sjá þær gera, gerðist og hélt liðið sér uppi. Næstu tvö ár langar okkur að sjá þær spreyta sig í úrslitakeppninni og ná þar eins langt og mögulegt er.
Hvað varðar karlaliðið þá settum við okkur það markmið að reyna að enda ofar en 8unda sæti og ná inn í úrslitakeppni því við höfum gert okkur grein fyrir því að liðin okkar, hvað varðar fjárhag, eru ekki sambærileg mörgum öðrum liðum í sömu deild. Við náðum inn í 8 liða úrslitakeppni og fengum tvo heimaleiki sem fóru ekki framhjá neinum. Snemma þessa árs skiptum við um þjálfara karlamegin en Daniel Guðmundsson var á sínu þriðja og síðasta ári hér sem þjálfari meistaraflokks. Við tók Sverrir Þór sem svo kláraði tímabilið með sóma.
Vegna covid, vegna engra áhorfenda að stærstum hluta tímabilsins, vegna fárra fjáraflanna sem við gátum farið í og vegna mikils viðhalds á húsnæði okkar að Túngötu 19, þá var sú erfiða ákvörðun tekin að selja húsið og fara í leit að hentugra húsnæði fyrir leikmenn liðanna. Núna í lok tímabilsins fundum við loksins íbúð sem við gátum keypt, íbúð sem hentar okkur mjög vel fyrir hluta leikmanna okkar. Hugmyndin er á lofti að koma henni í skammtímaleigu en við erum enn að bíða eftir afhendingu.
Niðurstaðan eftir þetta tímabil er sú að við eigum frábært velviljað duglegt fólk sem er að gefa deildinni frítíma sinn og vinnur fyrir deildina af heilum hug. Við erum öll sammála því að ennþá erum við að læra, að ennþá erum við að ná að toppa okkur og gera betur en tímabilið áður.
Á okkar leikjum í vetur hafa iðkendur ekki þurft að hafa áhyggjur af því að greiða sig inn á leiki eða að komast á milli íþróttahúsa þegar stórir leikir hafa farið fram eins og t.d þegar rútur mættu hér fyrir utan öllum að kostnaðarlausu og óku okkur austur suðurströndina í rimmunni við Þór Þorlákshöfn. Þegar áhorfendabannið var á og Stöð2Sport ekki í húsinu þá gátum við nýtt okkur þann flotta búnað sem deildirnar keyptu og þannig sýnt mjög marga leiki á GrindavíkTv, allt í háskerpu með lýsendum sem er alveg hreint magnað.
Stjórn kkd langar að koma þökkum til allra sem tóku þá í þessu þunga tímabili sem var að klárast, og vonandi kemur covid aldrei aftur því rekstur tveggja deilda í þessu umhverfi hefur verið mjög erfiður og óútreiknanlegur.
Í lok tímabils, eftir mjög erfið rekstrarár, get ég sagt að okkur hefur ágætlega tekist til við að fara ekki fram úr okkur fjárhagslega né að hafa setið eftir og verið í fallbaráttu. Fyrir það er ég þakklátur.
Takk fyrir mig.
KKD UMFG
Ingibergur Þór Ólafarson formaður