Skýrsla unglingaráðs

Árið 2020 var svo sannarlega fordæmalaust í grindvískri knattspyrnusögu. Frá lok mars og fram í byrjun maí voru allar æfingar flautaðar af sökum covid. Þjálfarar voru duglegir við að setja inn æfingar og myndbönd á síðu flokkanna við mikla ánægju bæði iðkanda og foreldra.

Sumarið tók við með aðeins bjartari tímum og gátum við tekið þátt í öllum stærstu mótum sem í boði voru fyrir drengi og stúlkur, ásamt mótum KSÍ.  Það voru þó settar fjöldatakmarkanir á foreldra, en allt gekk þetta þó upp án mikilla vandræða. Þannig að leiknir hafa verið þó nokkuð margir leikir yfir sumartímann. 3. flokkur karla komst því miður ekki til Spánar til þess að taka þátt í Costa blanca cup eins og gert hafði verið ráð fyrir.

Knattspyrnuskóli sumarsins var á sínum stað í sumar líkt og í fyrra, en þeir Milos Jugovic og Anton Ingi Rúnarsson voru umsjónarmenn skólans. Þar voru 3 mismunandi löng námskeið og var góð aðsókn hjá þeim félögum. Vonandi verður þessi sumarskóli starfræktur áfram hjá okkur.

5. flokkur Íslandsmeistari

Föstudagurinn 11. september líður seint úr manna minnum þeirra sem lögðu leið sína á Grindavíkurvöll til þess að horfa á úrslitaleik Íslandsmótsins hjá A- liði 5. flokks Grindavíkur sem lék á móti Breiðabliki.  Þessi leikur var stórkostlegur og endaði með fræknum 3-2 sigri okkar drengja og sjálfur Íslandsmeistaratitilinn í höfn! Það er ekki laust við að maður fái gæsahúð við að rifja upp þennan eftirminnilega dag. Leikurinn, úrslitin, umgjörðin, allir stórkostlegu áhorfendurnir og stemningin sem var engri lík. Þetta er alveg ótrúlegt afrek hjá strákunum, Cober og Antoni Inga þjálfurum þeirra.

Um miðjan september tókst okkur að halda lokahóf fyrir 3. og 4. fl kk og kvk, en ákvörðun var tekin um að sleppa lokahófi yngri iðkenda þetta árið sökum heimsfaraldurins og mikilla fjölda takmarkanna. Við hittumst í Gjánni og buðum við upp á popppoka og vatnsflösku að þessu sinni. Sigurjón Ernir Sturluson últra-maraþon hlaupari kom og ræddi við okkur um næringu, mataræði, hvíld og neyslu orkudrykkja.  Þá verðlaunuðu þjálfarar þá sem þeim þótti hafa skarað framúr á þessu annars skrýtna tímabili.

Þjálfarar yngri flokka

Í haust urðu tvær breytingar á þjálfurum hjá okkur. Milos Jugovic og Bjarni Þórarinn létu af störfum hjá okkur og þökkum við þeim fyrir þeirra góða framlag. Einhverjar breytingar urðu svo á þjálfurum innbyrðis á milli flokka. Steinberg Reynisson kom inn á ný og tók að sér yngstu iðkendurna, sem er 8. flokkur barna af báðum kynjum og Gylfi Öfjörð og Guðný Eva Birgisdóttir komu ný inn. Við erum heppin með starfsfólk, þetta er ungt og metnaðarfullt fólk sem er duglegt að bæta við menntun sína.

En þjálfarar okkar í dag eru þessir: Nihad Cober, Anton Ingi Rúnarsson, Pálmar Guðmundsson, Smári Jökull Jónsson, Margrét Rut Reynisdóttir, Benóný Þórhallsson, Steinberg Reynisson, Guðný Eva Birgisdóttir og Gylfi Örn Öfjörð, ásamt nokkrum ungum áhugasömum aðstoðarmönnum.

Í september var síðan tekið 10 daga frí og hófust æfingar á ný strax eftir flokkaskipti og ráðningu þjálfara.  En sá tími stóð stutt yfir, þar sem okkur var gert að stoppa allar æfinar á ný í lok október fram yfir miðjan nóvember enn og aftur vegna covid.

Ægir Viktorsson og Petra Rós Ólafsdóttir létu af störfum í unglingaráði eftir áralangt og óeigingjarnt starf. Fá þau bæði ómældar þakkir fyrir frá okkur í ráðinu. En þau starfa bæði áfram innan deildarinnar á öðrum sviðum sem er frábært. Í stað þeirra komu þau Halla Þórðardóttir og Guðmundur Grétar Karlsson.

Í unglingaráði eru því eftirfarandi: Jóhann Axel Pétursson, Helgi Þór Guðmundsson, Sigurpáll Jóhannsson,  Guðmundur Grétar Karlsson, Ásta Björg Einarsdóttir,  Halla Þórðardóttir ásamt undirritaðri.

Aðstöðuleysi deildarinnar

Það málefni sem brennur helst á okkur í unglingaráði er ennþá það sama og ég nefndi í skýrslu minni árið 2018. Það er æfingaaðstaðan okkar. Við sitjum því miður ekki við sama borð og önnur lið hvað það varðar, og síst ekki hér í Grindavík og það erum við alls ekki sátt með. Frá hausti og fram á vor höfum við ekki löglegan völl á stærð til afnota sem er mjög miður. Það sést bersýnilega á vorin, þegar við leikum við lið á velli sem er í fullri stærð.  Þá skilur himinn og  haf á milli liða, enda liðnir rúmir sjö mánuðir frá því að iðkendur okkar hafa æft á stórum velli. Svo ég tali nú ekki um allan aksturinn fyrir foreldra og auka tíma sem fer í að sækja alla okkar heimaleiki á öðrum völlum í Reykjavík vegna aðstöðuleysis okkar. Ekki er heldur hægt að horfa fram hjá kostnaðinum fyrir knattspyrnudeildina að leigja þessa aðstöðu, sem er gríðarlega mikill.

Þetta finnst okkur ekki vera bjóðandi lengur og hvetjum við bæjarstjórn til frekari framkvæmda svo úr þessu megi bæta sem fyrst. Unglingaráð vill að lokum þakka stjórn, framkvæmda – og vallarstjóra, þjálfurum og foreldrum fyrir gott samstarf. Eins og alltaf, þá gengur þetta viðamikla barna- og unglingastarf ekki upp án allra þessara þátttakenda.

Með einlægri ósk um að næsta knattspyrnutímabil verði okkur eðlilegra og allt verði betra með hækkandi sól.

F.h. unglingaráðs,
Ragnheiður Þóra Ólafsdóttir