Kæru félagar,
Árið 2020 verður lengi í minnum haft sögulega séð og mun í framtíðinni vera rifjað upp um allan heim sem leiðinlegasta íþróttaár s.l. áratugi. Áhorfendur bannaðir, áhorfendur heimilaðir, 100 manns núna, 200 næst, 100 manns aftur, 10 gestir mest frá hverju félagi fyrir utan starfsfólk, leikmenn og þjálfara. Sprittaðir boltar og þrifnir í hvert skipti sem bolti fór útaf. Það kom þó fyrir skemmtilegt atvik í leik Grindavíkur og Þórs, þar sem við vorum búnir að fá 2 rauð spjöld, við 1-0 yfir og Þórsarar voru að flýta sér í öllum aðgerðum og þá var einmitt verið að spritta boltana og setja þá á fötur þar sem leikmenn áttu síðan að nálgast þá. Sandföturnar hjá Gulla Hreins og Ivan Jugovic vallarstjórum voru aðeins of rúmar og boltinn festist í einni fötunni þegar leikmaður Þórsara ætlaði að taka innkast. Þetta tafði greyið Þórsarann um góðar 15-20 sekúndur sem féll ekki vel í kramið og við sakaðir um að svindla viljandi með þessari óviljandi töf. Vissulega broslegt atvik en klárlega óviljandi gert hjá boltadrengnum þó hann hafi glott til undirritaðs í kjölfarið af atvikinu.
Þau voru nokkur rauðu spjöldin sem við fengum s.l. sumar í leikjum meistarflokks karla sem var ekki að hjálpa okkur í baráttu um toppinn í deildinni. Við vörum í ströggli með botnliðin á útivelli og töpuðum oft niður góðri forrystu fyrri part tímabils en það fór að ganga betur þegar leið á tímabilið eftir að leikmenn funduðu saman án þjálfara og stjórnar. Í næstu 10 leikjum var einungis einn tapleikur og var það síðasti leikurinn sem við spiluðum. Niðurstaðan varð að lokum fjórða sætið að loknum 19 leikjum en eins og flestir vita þá náðist ekki að klára mótið vegna Covid19. Við ætlum okkur lengra í sumar, stefnan er tekin á efsta sætið og vera í deild þeirra bestu árið 2022.
Konurnar deildarmeistarar
Meistarflokkur kvenna stóð sig vel í 2. deild kvenna. Þar stóðu þær uppúr sem sigurvegarar deildarkeppninnar. Þær áttu þó eftir að spila við Hamar en það náðist ekki vegna Covid19 og vorum við með flest stig að meðaltali miðað við spilaða leiki. Það var yfir tugur stúlkna í liðinu okkar sem voru fæddar árið 2000 eða seinna sem áttu stóran þátt í að klára þetta s.l. sumar. Er stefnan sett á að halda áfram starfinu frá því í fyrra með þessar stúlkur með nýjum þjálfara í brúnni, honum Jóni Ólafi Daníelssyni sem skrifaði undir árssamning við okkur nýverið. Þekkjum vel til Jóns Óla og bjóðum hann hjartanlega velkominn til starfa um leið og við þökkum Ray Jónssyni fyrir hans störf með þessar stelpur en hann kaus að halda ekki áfram að þjálfa þó honum hafi staðið það til boða. Unglingastarfið gekk vel s.l. sumar en Ragnheiður mun útlista það betur hér á eftir. Við eignuðumst Íslandsmeistara utanhúss hjá strákunum sem hefur ekki gerst áður og svo er afreksþjálfunin komin í gott horf, þar sem stelpurnar eru að mæta nánast jafn margar og strákarnir á æfingarnar sem er verulega ánægjulegt.
Jákvæður rekstur deildarinnar
Rekstur deildarinnar lítur nokkuð vel út. Við höfum náð að greiða niður allar skuldir okkar s.l. 3 ár og laun greidd á réttum tíma og skv. samningum. Þrátt fyrir Covid ár þá hefur stjórninni tekist að reka deildina með hagnaði sem Hjörtur mun sýna ykkur hér á eftir við yfirferð ársreikningsins. Við förum samt varlega inní 2021 þar sem við finnum fyrir því að fyrirtæki eru enn að draga saman í styrkjum og búumst við við því að þetta ár verði erfiðara og erum við þegar farnir að finna fyrir því í styrktarbeiðnum hjá okkur.
Við höfum verið að dragast afturúr aðstöðulega séð s.l. ár og sjáum við ekki fyrir okkur að neitt verði gert til frambúðar fyrir okkur hér á næstu 2-3 árum til að bæta hana. Það er í farvatninu að fá nýja gáma til að sinna miðasölu og sjoppumálum hjá okkur en við vonum svo sannarlega að yfirvöld hér í Grindavík fari að sjá að sér í þessum málum og gera eitthvað til frambúðar hérna fyrir okkur. Við erum að leita út fyrir bæjarfélagið með flesta flokka í karla og kvennaflokki hjá okkur vegna þeirra móta sem við tökum þátt í á hverju ári og finnst okkur það bagalegt að þurfa þess.
Við þurfum á meiri framsýni bæjarfulltrúa að halda og frekari fjárfestingu bæjarins á okkar íþróttasvæði og hvetjum bæinn til þess að skipuleggja næstu framkvæmdir í bænum og forgangsraða þeim. Íþróttir eru forvarnir, það á ekki að þurfa sífellt að vera að tyggja það ofan í fólk hversu mikilvægt starf er verið að vinna hér. Við eigum að geta boðið okkar fólki uppá góða aðstöðu til að stunda sína íþrótt og styðja einnig við bakið á fólkinu sem er að gefa sína vinnu í félagið með því að skapa aðstöðu sem fólki líður vel að vinna í.
Íþróttadeildir og félög í Grindavík eru með á annað hundrað af sjálfboðaliðum að sinna hinum ýmsu störfum sem falla til og eru gríðarlega nauðsynlegir starfskraftar. Þetta eru einhverjir tug þúsundir klukkustunda sem allt þetta fólk leggur til íþróttastarfs á hverju ári og liggur örugglega nærri hundrað milljónum ef við myndum verðmeta þetta oft vanmetna starf. Við hjá knattspyrnudeildinni erum mjög þakklát fyrir allt þetta fólk okkar og eiga þau þakkir skildar fyrir hverja einustu mínútu sem þau leggja til, til að aðstoða okkur. Sérstakar þakkir fær þorrablótsnefndin fyrir þeirra störf s.l. ár. Blótið orðið stærsta skemmtun ársins hjá okkur, viðburður sem fólk talar um í nokkra mánuði fyrir blót og svo aftur í nokkra mánuði eftir blót, svo stórkostlegur er þessi viðburður orðinn þökk sé frábæru fólki sem aðstoðar okkur þar.
Að lokum vil ég hér þakka starfsmönnum vallarins og framkvæmdastjóra UMFG fyrir samstarfið á síðasta ári ásamt stjórnum og nefndum deildarinnar. Þórarinn Ólafsson ætlar að hætta í stjórn og þökkum við honum fyrir sitt framlag.
Kveðja,
Gunnar Már Gunnarsson
Formaður knd. Grindavíkur