Skýrsla stjórnar - Knattspyrnudeild
Árið 2020 verður lengi í minnum haft sögulega séð og mun í framtíðinni vera rifjað upp um allan heim sem leiðinlegasta íþróttaár s.l. áratugi. Áhorfendur bannaðir, áhorfendur heimilaðir, 100 manns núna, 200 næst, 100 manns aftur, 10 gestir mest frá hverju félagi fyrir utan starfsfólk, leikmenn og þjálfara. Sprittaðir boltar og þrifnir í hvert skipti sem bolti fór útaf. Það kom þó fyrir skemmtilegt atvik í leik Grindavíkur og Þórs, þar sem við vorum búnir að fá 2 rauð spjöld, við 1-0 yfir og Þórsarar voru að flýta sér í öllum aðgerðum og þá var einmitt verið að spritta boltana og setja þá á fötur þar sem leikmenn áttu síðan að nálgast þá. Sandföturnar hjá Gulla Hreins og Ivan Jugovic vallarstjórum voru aðeins of rúmar og boltinn festist í einni fötunni þegar leikmaður Þórsara ætlaði að taka innkast. Þetta tafði greyið Þórsarann um góðar 15-20 sekúndur sem féll ekki vel í kramið og við sakaðir um að svindla viljandi með þessari óviljandi töf. Vissulega broslegt atvik en klárlega óviljandi gert hjá boltadrengnum þó hann hafi glott til undirritaðs í kjölfarið af atvikinu.
Þau voru nokkur rauðu spjöldin sem við fengum s.l. sumar í leikjum meistarflokks karla sem var ekki að hjálpa okkur í baráttu um toppinn í deildinni. Við vörum í ströggli með botnliðin á útivelli og töpuðum oft niður góðri forrystu fyrri part tímabils en það fór að ganga betur þegar leið á tímabilið eftir að leikmenn funduðu saman án þjálfara og stjórnar. Í næstu 10 leikjum var einungis einn tapleikur og var það síðasti leikurinn sem við spiluðum. Niðurstaðan varð að lokum fjórða sætið að loknum 19 leikjum en eins og flestir vita þá náðist ekki að klára mótið vegna Covid19. Við ætlum okkur lengra í sumar, stefnan er tekin á efsta sætið og vera í deild þeirra bestu árið 2022.
Iðkendur Knattspyrnudeildar
Skýrsla unglingaráðs
Árið 2020 var svo sannarlega fordæmalaust í grinvískri knattspyrnusögu. Frá lok mars og fram í byrjun maí voru allar æfingar flautaðar af sökum covid. Þjálfarar voru duglegir við að setja inn æfingar og myndbönd á síðu flokkanna við mikla ánægju bæði iðkanda og foreldra.
Sumarið tók við með aðeins bjartari tímum og gátum við tekið þátt í öllum stærstu mótum sem í boði voru fyrir drengi og stúlkur, ásamt mótum KSÍ. Það voru þó settar fjöldatakmarkanir á foreldra, en allt gekk þetta þó upp án mikilla vandræða. Þannig að leiknir hafa verið þó nokkuð margir leikir yfir sumartímann. 3. flokkur karla komst því miður ekki til Spánar til þess að taka þátt í Costa blanca cup eins og gert hafði verið ráð fyrir.
Knattspyrnuskóli sumarsins var á sínum stað í sumar líkt og í fyrra, en þeir Milos Jugovic og Anton Ingi Rúnarsson voru umsjónarmenn skólans. Þar voru 3 mismunandi löng námskeið og var góð aðsókn hjá þeim félögum. Vonandi verður þessi sumarskóli starfræktur áfram hjá okkur.