Árið 2021 var skemmtilegt, viðburðarríkt og spennandi ár fyrir UMFG þrátt fyrir að covid væri enn við völd og væri aðeins að hrella okkur.
Þorrablót UMFG var haldið rafrænt 20. febrúar en það var í fyrsta sinn sem við héldum þannig blót. Það heppnaðist með eindæmum vel og voru bæjarbúar yfir sig glaðir með frábæra skemmtun . Knattspyrnu- og körfuknattleikdeild UMFG sá um blótið og seldu að auki happadrættismiða sem seldust vel og voru glæsilegir vinningar í boði.
UMFG sá um leikjanámskeið um sumarið. Það gekk mjög vel og fengu starfsmenn mikið hrós fyrir metnað og góða vinnu. Um 70 krakkar sóttu námskeiðið.
Aðalfundur UMFG var haldinn óvenjuseint eða 24.júní. Úr stjórn fóru Guðmundur Bragason og Rúnar Sigurjónsson. Inní stjórn komu Ásgerður Hulda Karlsdóttir og Gunnlaugur Hreinsson. Nýr formaður var kosinn, Klara Bjarnadóttir. Bjarni Már Svavarsson bauð sig ekki aftur fram til formanns en hélt áfram í stjórn. Ásgerður og Bjarni voru kosin til 2 ára en Gunnlaugur og Kjartan Adolfsson til 1 árs. Kosnir varamenn voru Ámundínus Örn Öfjörð, Jón Ólafur Sigurðsson og Tracy Vita Horne.
Í byrjun október fóru formaður og framkvæmdarstjóri UMFG til Húsavíkur á ársþig UMFÍ. Þar kynntumst við hópi af góðu og kraftmiklu fólki, mynduðum tengsl, lærðum af þeim og miðluðum af reynslu okkar.
Við sóttum vinnustofur um rafíþróttir en það er okkur hjartans mál að koma á laggirnar rafíþróttadeild UMFG og ná til þeirra iðkenda sem etv. finna sig ekki í hópíþróttum. Vonumst við til að sú vinna fari af stað sem fyrst með hjálp frá Grindavíkurbæ en okkur sárlega vantar húsnæði undir starfsemina.
Vinna við framtíðarsýn íþróttasvæðis Grindavíkur hófst á árinu. Framkvæmdarstjóri vann að málinu ásamt starfsmönnum Grindavíkurbæjar. Fögnum við þeirri vinnu gífurlega en í ágúst 2020 sendum við erindi til bæjarins og báðum um þessa vinnu.
Íþróttaárið var gert upp í lok árs þar sem viðurkenningar voru veittar. Covid leyfði okkur ekki að hafa verðlaunahátíð fyrir opnu húsi en það verður vonandi næst.
Margt þarf að bæta og gera betur. Við höfum ekki enn fengið áhorfendastúku í nýja körfuboltahúsið okkar og þar af leiðandi æfa meistaraflokkarnir okkar ekki þar. Því ekki æfa þeir, þar sem ekki er hægt að keppa. Okkur vantar nýja sundlaug og betri aðstöðu fyrir fimleikana. Gervigras á fótboltavöllinn og betri aðkomu fyrir áhorfendur. Betri áhöld fyrir bardagagreinar og aðstöðu fyrir styrktarþjálfun. Þessu öllu viljum við breyta, gera aðstöðuna enn betri og munum við berjast fyrir því af öllum mætti.
Heilt yfir gekk árið mjög vel. Samkomutakmarkanir voru að hamla æfingar og fjölda á kappleiki en alltaf voru allir tilbúnir til að gera sitt besta, hugsa í lausnum og láta allt ganga upp Samvinnan er mikilvægust og við erum heppin hér í Grindavík að eiga gott fólk sem er tilbúið að leggja sig fram að fullu fyrir félagið sitt. Því ber að hrósa og það hátt.
Ég er stolt af félaginu mínu. Stolt af fólkinu sem er tilbúið að vinna af heildum fyrir félagið sitt og gera ætið það allra besta fyrir hag þess. ÁFRAM GRINDAVÍK.
Fh. Aðalstjórnar Ungmennafélags Grindavíkur
Klara Bjarnadóttir, formaður