Skýrsla stjórnar

Árið 2021 var óvenjulegt ár og svipaði mjög til ársins 2020, þar sem mikil óvissa ríkti vegna Covid 19. Janúar og febrúar mánuðir gengu ágætlega hjá okkur og ekki þurfti að fella niður margar æfingar vegna slæms veðurs.

Uppúr miðjum mars var öllum æfingum hætt vegna samkomutakmarkana og þjálfarar gerðu sitt besta til að til að halda iðkendum við efnið með myndböndum með ýmsum leiðbeiningum og styrktaræfingum. Um miðjan apríl byrjuðu æfingar aftur af fullum krafti og stóðu fram í miðjan júní.

Hjá yngri iðkendum endaði tímabilið með foreldra tímum þar sem foreldrum gafst kostur á að sjá hvað börnin höfðu lært og svo var boðið uppá ís og frjálsan tíma með foreldrum.

Samkvæmt hefð undanfarinna ára hefði átt að vera farið í æfingaferð í júní. Vegna ástandsins í heiminum vegna Covid 19 var því frestað.

 

Í júlí var ákveðið að gera eitthvað skemmtilegt fyrir eldri krakkana eftir frekar dauft covid sundtímabil. Byrjað var á því að fara í sundlaugina á Álftanesi, þaðan var farið í fluglínuna við Perluna og endað í Minigarðinum þar sem var spilað golf og borðað saman.

Allar æfingar byrjuðu aftur í september og gekk vel fyrir utan nokkrar æfingar sem þurfti að fella niður vegna veðurs.

Í desember var haldin jólastund með öllum iðkendum og þjálfurum.

Við höldum áfram í vonina að við fáum sem fyrst 25 metra almennilega innisundlaug til að geta haldið úti æfingum en okkur þykir mjög slæmt að þurfa að fresta æfingum vegna slæms veðurs. Við lendum líka í vandræðum með sundæfingar þegar veðrið er mjög gott því eðlilega fyllist þá sundlaugin af fólki sem er að koma og njóta veðurblíðunnar en þá er ekki lengur pláss fyrir sundiðkendur á brautunum. Sundaðstaðan er alls ekki nógu góð og vonumst við til þess að bætt verði úr því sem fyrst.

Sunddeildin hefur verið að kaupa búnað fyrir sundæfingar en við erum í vandræðum með pláss til að geyma hann í. Við höfum haft aðstöðu í útikofanum við sundlaugina en hann er óupphitaður og skemmist búnaðurinn þegar hann nær aldrei að þorna. Við bindum okkar vonir einnig við að það verði einhvern tíman gert ráð fyrir smá geymslu handa sunddeildinni.

Þjálfarar sunddeildarinnar eru:

Tracy Vita Horne sem var með iðkendur í 1.-5. bekk.
Margrét Rut Reynisdóttir sem var með elsta hópinn, 6. bekk og eldri.
Aðstoðar þjálfarar með yngri hópum eru Sigurjón Samved Adhikari og Svanhildur Röfn Róbertsdóttir auk þess sem Þórdís Steinþórsdóttir hefur leyst af þegar þess hefur verið þörf.

Þjálfarar stóðu sig með stakri prýði á þessum sérstaka tíma sem einkenndi síðasta ár.

Hvatningarverðlaunin voru afhent í lok árs og sá sem hlaut þau er: Óskar Freyr Björnsson.

Umsögn þjálfara var svohljóðandi: Óskar sinnir sundinu einstaklega vel, mætir vel á æfingar og er metnaðarfullur. Gaman er að fylgjast með Óskari á æfingum þar sem hann leggur sig ávallt 100% fram. Óskar hefur einnig tekið framförum í hraða og hefur mikinn sprengikraft. Hann kemur ávallt vel fram, er kurteis og prúður drengur. Ég vona sannarlega að þessi viðurkenning verði þér hvatning til að halda áfram og taka enn frekari framförum.